Talið er að vígamenn samtakanna hafi tekið um 230 manns í gíslingu þegar þeir gerðu mannskæðar árásir á suðurhluta Ísrael þann 7. október. Um 1.400 manns dóu í árásásunum og þar af lang flestir óbreyttir borgarar, en Hamas-liðar eru sagðir hafa framið grimmileg ódæði í árásunum, sem þeir tóku að hluta til upp.
Reuters hefur eftir einum af leiðtogum hryðjuverkasamtakanna að samkomulag hafi verið í nánd en að Ísraelar hafi ekki viljað taka því enn. Abu Ubaida, umræddur leiðtogi, segir að Hamas muni eingöngu sleppa öllum gíslunum í skiptum fyrir frelsun allra Palestínumanna í fangelsum Ísrael.
Hann sagði einnig að til greina kæmi að ræða frekar um frelsun fárra gísla í einu en viðræður hafa átt sér stað með milligöngu erindreka frá Egyptalandi og Katar.
Yfirvöld í Ísrael segja að herinn geti bæði útrýmt Hamas-samtökunum á Gasaströndinni og í senn frelsað gíslana. Herinn hefur gert innrás í norðvesturhluta Gasastrandarinnar og gert gífurlega umfangsmiklar loft- og stórskotaliðsárásir í þrjár vikur.
Segja átta þúsund liggja í valnum
Heilu hverfin hafa verið lögð í rúst í þessum árásum og heilbrigðisráðuneyti Gasastrandarinnar, sem stýrt er af Hamas, segir minnst átta þúsund manns hafa fallið í árásunum.
Talsmenn Hamas hafa sagt að gíslar hafi fallið í loftárásum Ísraela. Gíslar sem hafa verið frelsaðir segja að þeim hafi verið haldið í göngum Hamas undir Gasaströndinni.
Myndatökumaður Fox News tók meðfylgjandi myndband of bæ á norðanverðu Gasasvæðinu sem virðist alfarið hafa verið lagður í rúst.
Our view of northern Gaza this morning. The entire neighborhood we can see is reduced to rubble. pic.twitter.com/AA47wtrJ09
— Trey Yingst (@TreyYingst) October 29, 2023
Hafa áhyggjur af gíslunum
Ættingjar gíslanna hafa miklar áhyggjur af afdrifum þeirra og hafa þrýst á ríkisstjórn Ísraels um að stöðva aðgerðir hersins tímabundið og leggja áherslu á að frelsa gíslana.
Þau funduðu með Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael, í gær og hét hann því að gera allt sem í valdi hans stendur til að bjarga gíslunum. Umræddir ættingjar hvöttu Netanjahú til að verða við kröfum Hamas um að frelsa alla Palestínumenn í ísraelskum fangelsum.
Samkvæmt frétt Times of Israel sagði Netanjahú að helsta markmið stríðsins gegn Hamas væri að frelsa gíslana og ítrekaði hann að hann meinti það. Hann sagði að lykillinn væri að þrýsta á Hamas-samtökin og því meiri sem þrýstingurinn væri, því líklegri væru Hamas-liðar til að sleppa gíslunum.
Á blaðamannafundi í gærkvöldi staðfesti hann svo að viðræður um það að gíslunum yrði sleppt í skiptum fyrir Palestínumenn sem hefðu verið fangelsaðir í Ísrael hefðu átt sér stað en fór ekki nánar út í það.