Þar af eru 3.457 börn.
„Heilu kynslóðirnar af fjölskyldum hafa verið þurrkaðar út á Gasa síðastliðnar þrjár vikur,“ segir í yfirlýsingu utanríkisráðuneytis Suður-Afríku. Fjöldi látinna, ekki síst barna, kalli á að alþjóðasamfélagið sýni að því sé alvara með að láta menn axla ábyrgð á gjörðum sínum.
Cyril Ramaphosa, forseti Suður-Afríku, er meðal þeirra leiðtoga sem hafa boðist til að reyna að miðla málum í deilunni milli Ísrael og Hamas. Þá ganga stjórnvöld þar í landi ívið lengra en flest önnur ríki, sem hafa kallað eftir vopnahléi en ekki talað fyrir beinu inngripi.
Daniel Hagari, talsmaður Ísraelshers, sagði í morgun að aðgerðir Ísraelsmanna væru á áætlun og að tugir Hamas-liða hefðu fallið í árásum í nótt. Hann sagði hersveitir í norðurhluta Gasa og þá hefði nokkur fjöldi vígamanna verið skotinn niður af flugvélum í Jenin-flóttamannabúðunum á Vesturbakkanum.
Ísraelskir miðlar segja eldflaug sem skotið var frá Gasa hafa hæft íbúðahús í bænum Netivot.
Utanríkisráðuneyti Ísrael hefur staðfest að Shani Louk, húðflúrlistamaður frá Þýskalandi, sé látin. Myndskeið frá árásum Hamas á byggðir Ísraelmanna sýndu líkama Louk liggja aftur í pallbíl. Süddeutsche Zeitung hefur eftir móður Louk að lík hennar hafi ekki fundist en flís úr höfuðkúpu hafi reynst vera hennar.
Samkvæmt innanríkisráðuneyti Frakklands hafa 719 atvik gyðingaandúðar verið skráð í landinu frá því að árásir Hamas áttu sér stað 7. október síðastliðinn. Til samanburðar voru 436 atvik skráð allt árið í fyrra.