Enski boltinn

Leik­menn United kvarta undan of þröngum búningum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
André Onana er búinn að skipta um búning þar sem honum fannst upprunalegi búningurinn of þröngur.
André Onana er búinn að skipta um búning þar sem honum fannst upprunalegi búningurinn of þröngur. getty/Robbie Jay Barratt

Nánast allt virðist í ólagi hjá Manchester United, meðal annars búningamálin. Leikmenn liðsins hafa nefnilega kvartað undan of þröngum búningum.

Daily Mail greinir frá því að leikmenn United noti ekki lengur sokka úr búningasettinu þar sem þeir séu of þröngir í kringum kálfana. 

Þeir hafa ekki notað upprunalegu sokkana frá öðrum leik tímabilsins gegn Tottenham 19. ágúst. Fyrst í stað reyndu leikmennirnir að leysa vandamálið með því að klippa gat aftan á sokkana til að losa um þrýsting en gáfust svo upp og byrjuðu að nota aðra sokka.

Þá er markvörðurinn André Onana hættur að nota treyjuna sína og notar þess í stað eftirlíkingu af henni þar sem honum finnst upprunalega treyjan of þröng. Onana skipti um búning eftir sigurinn á Sheffield United, 1-2, fyrir rúmum mánuði.

Á síðasta tímabili kvartaði forveri Onanas í marki United, David de Gea, yfir því að markvarðabúningur liðsins væri of víður. Onana er öllu breiðari en De Gea og glímir ekki við sama vandamál og Spánverjinn.

Samkvæmt frétt Daily Mail er Adidas, sem framleiðir búninga United, að vinna í því að finna lausn á vandamálinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×