Katrín segir það liggja fyrir að hún og utanríkisráðherra, Bjarni Benediktsson, hefðu getað talað betur saman í aðdraganda atkvæðagreiðslu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna síðasta föstudag um mannúðarhlé á Gasa.
„Það er ljóst að við hefðum alveg getað talað saman fyrir þessa atkvæðagreiðslu og ég held að þar megi kenna um báðum ráðuneytum,“ segir Katrín og heldur áfram:
„Samkvæmt forsetaúrskurði ber utanríkisráðherra alla ábyrgð í þessu máli en auðvitað er það þannig að í ríkisstjórn tölum við saman um ýmsa hluti sem eru samt á ábyrgð tiltekins ráðherra“
Hún segir þó ekki hefð fyrir sérstöku samtali tveggja ráðherra um slíka atkvæðagreiðslu.
„En auðvitað blasir við að þetta er mál sem hefur mikla merkingu hér á Íslandi. Við höfum auðvitað viðurkennt Palestínu sem sjálfstætt ríki og þar af leiðandi er þetta mál sem varðar okkur sérstaklega.“
Hún segir hjásetu Íslands í atkvæðagreiðslunni ekki merkja andstöðu við ákalli Sameinuðu þjóðanna um vopnahlé. En viðurkennir að hún hefði viljað sjá öðruvísi farið að. Það hefði þingflokkur hennar líka viljað eins og kom fram í yfirlýsingu þeirra í kjölfarið.
„Ég hefði talið að það ætti að leita leiða til að geta stutt tillöguna þó hún væri ekki alveg eins og við hefðum kosið. Við auðvitað kusum með breytingatillögu Kanada. En ég hefði viljað leita leiða til að geta stutt þessa tillögu,“ segir Katrín og að Noregur hafi til dæmis farið aðra leið en þau voru ein Norðurlandaþjóða sem samþykkti tillöguna.
Katrín er nýkomin heim af fundi leiðtoga Norðurlandanna í Osló og segir að málið hafi verið rætt þar. Það hafi allir verið sammála um að betra hefði verið að finna einhverja norræna samstöðu í þessu máli.
Katrín segir stóra málið hér þó alltaf vera mannúðarhlé á Gasa.
„Þarna erum við að sjá gríðarlegar hörmungar og ég dreg ekkert úr því að upphafleg árás Hamas inn í Ísrael var skelfileg og það ber að halda því til haga. En það breytir því ekki að umfang þess sem er að gerast á Gasa núna er hrikalegt og það er gríðarlega mikilvægt að því linni.“