Við vitum núna hvar næstu þrjár heimsmeistarakeppnir karla í fótbolta fara fram og það án þess að það hafi verið kosið um hvar keppnirnar 2030 og 2034 fari fram. Ástæðan var einföld. Það var bara eitt framboð í boði.
Þetta varð ljóst með HM 2034 eftir að Ástralar hættu við að vilja halda HM og aðeins Sádí Arabía stóð eftir.
FIFA bauð síðan upp á skrautlega útfærslu fyrir keppnina 2030 þar sem þrír fyrstu leikirnir fara fram í þremur löndum í Suður Ameríku en restin af keppninni er síðan spiluð í þremur löndum í suður Evrópu og norður Afríku. Þetta var bara gefið út í fréttatilkynningu í byrjun október.
Lise Klaveness fyrer løs mot Fifa etter VM-prosessen: - Ser ikke ut til å ha vært reell konkurranse https://t.co/OQCaYKZrzU
— TV 2 Sport (@tv2sport) November 1, 2023
Lise Klaveness, forseti norska knattspyrnusambandsins, hefur gagnrýnt forseta FIFA, Gianni Infantino, fyrir það hvernig staðið var að þessu.
„Nú þegar lokafresturinn er runninn út fyrir þjóðir til að sækja um HM þá stöndum við enn á ný uppi með spurningar um það hvernig við komust á þennan stað,“ sagði Lise Klaveness en norska ríkisútvarpið segir frá.
„Það virðist ekki hafa verið alvöru samkeppni um að fá að halda HM 2030 og 2034 og það lítur út fyrir að forseti FIFA (Gianni Infantino) hafi verið duglegur að vinna að því á bak við tjöldin að tryggja það að þetta væri útkoman,“ sagði Klaveness.
„Ég hef áhyggjur af því þegar það er engin opinber samkeppni lengur um að fá að halda heimsmeistaramót þá eru mikilvægar ákvarðanir teknar í bakherbergjum. Í fótboltanum þurfum við á andstöðu þess að halda og gegnsæi var líka einmitt það sem Infantino lofaði þegar hann var kosinn forseti FIFA,“ sagði Klaveness.