Viðskipti innlent

Þor­valdur er nýr tækni­stjóri Miðeindar

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Þorvaldur Páll Helgason er nýr tæknistjóri Miðeindar.
Þorvaldur Páll Helgason er nýr tæknistjóri Miðeindar.

Þorvaldur Páll Helgason hefur gengið til liðs við Miðeind, hugbúnaðarfyrirtæki sem vinnur að máltækni og gervigreind fyrir íslensku. Hann tekur við starfi tæknistjóra (CTO) og hefur yfirumsjón með tækni- og vöruþróun fyrirtækisins.

Þetta kemur fram í tilkynningu. Þar kemur fram að Þorvaldur hafi áður starfað í Bretlandi, síðast hjá Apple við máltækniþróun Siri sem stjórnandi gervigreindarteymis.

Hann er með MSc-gráðu í gervigreind frá Edinborgarháskóla ásamt BSc-gráðu í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands. „Það er mikill fengur að því fyrir Miðeind og íslenska máltækni að fá Þorvald til liðs við okkur,“ segir Linda Heimisdóttir, framkvæmdastjóri Miðeindar.

„Reynsla hans frá Apple og þekking á notkun gervigreindar, meðal annars á sviði talgreiningar og fyrirspurnakerfa, nýtist okkur við þá hröðu vöruþróun sem framundan er.“

Þá kemur fram að, þar að auki hefur Kári Steinn Aðalsteinsson bæst við starfsmannahóp Miðeindar sem almennur forritari með sérstaka áherslu á notendaupplifun og vefforitun.

Miðeind hefur frá árinu 2015 unnið að gerð hugbúnaðar á sviði máltækni og gervigreindar fyrir íslensku. Meðal vara fyrirtækisins eru snjall-aðstoðar-appið Embla, málrýni-verkfærið Yfirlestur.is, þýðingarvélin Vélþýðing.is og krossgátu-appið Explo. 

Miðeind hefur verið stór þátttakandi í máltækniáætlun stjórnvalda og vinnur nú að ýmsum tengdum verkefnum með íslenskum fyrirtækjum. Þá hefur fyrirtækið unnið með OpenAI að íslenskustuðningi í gervigreindarlíkaninu GPT-4.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×