Sérfræðingar skoða nú hvort þörf sé á fleiri GPS eða skjálftamælum.
„Við sjáum áframhaldandi landris. Við merktum hröðun frá því á föstudag þegar stóra hrinan var en svo er þetta nokkur jafn hraði“, egir Benedikt G. Ófeigsson fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu íslands. Hann segir skjálftana enn mælast á um fimm kílómetra dýpi.
„Hún er að dreifast á kannski tvo til fimm kílómetra, bulkið á henni er í kringum fjóra. Þetta er alltaf þessi dreifing en mesta virknin er á þessu dýpi. Það var tiltölulega rólegt miðað við í skjálftamálum en það var að aukast aftur virknin núna í morgun,“ segir Benedikt.
Hann segir skjálftana þó ekki stóra og þann stærsta hafa verið í kringum þrjá. Eins og stendur er viðbúnaðarstig á óvissustigi vegna jarðhræringanna. Benedikt segir ekki tilefni til að hækka á hættustig og ekki skýr merki um eldgos eins og stendur. Veðurstofan haldi áfram að fylgjast með stöðunni.
„Við getum lítið annað gert en að fylgjast með þessu en erum að meta hvort við bætum við mælitækjum til að covera þetta ennþá betur. Það er það sem við erum að skoða betur. Fleiri GPS mælar, fleiri skjálftamælar. Þetta er það sem við erum að fara yfir. Hver er þörfin og hvort hún er til staðar.“