Óvissustig Almannavarna er nú í gildi vegna jarðhræringa á Reykjanesi. Töluverð jarðskjálftavirkni hefur verið á Reykjanesi síðastliðinn sólarhring þar sem mælst hafa um eitt þúsund skjálftar. Íbúar á svæðinu hafa fundið vel fyrir jarðhræringunum þá sér í lagi þeir sem búa í Grindavík.
Hátt í sex hundruð börn stunda nám í Grunnskóla Grindavíkur og þar starfa um tvö hundruð manns. Eysteinn Þór Kristinsson skólastjóri þar segir ýmislegt hafa verið gert síðustu vikurnar til að undirbúa börnin vegna jarðhræringanna.
„Við erum búin að vera núna með þetta óvissustig í held ég tvær vikur og þeim tíma höfum við dustað rykið af viðbragðsáætlunum. Ryklagið var nú ekkert þykkt. Þetta er búið að vera svona aðeins að stríða okkur í þrjú ár. Núna þegar að eldgos er möguleiki einhvers staðar nálægt þá er verið að tala mikið um rýmingar.“
Allskonar tilfinningar í gangi
Þannig hafi börnin æft það hvernig þau fara út úr skólanum ef rýma þarf hann hratt. Eysteinn Þór segir fólk á svæðinu upplifa margar tilfinningar þessa dagana.
„Það eru náttúrulega allskonar tilfinningar í gangi. Þetta er stórt samfélag en bæði starfsfólk og nemendur hafa tekið þessu af mikilli ró eða yfirvegun.“

Börnin sjálf virðast vera nokkuð róleg yfir því sem er í gangi.
„Ég er ekkert að stressa mig á svona,“ segir Eysteinn Rúnarsson sem er nemandi í 10. bekk skólans. Hann segir þó að ef það sé eitthvað sem hann hafi áhyggjur af þá sé það hitaveitan.
Samnemendur hans taka í sama streng og segjast yfirleitt sofa jarðskjálftana af sér. Þau ræði þó málin sín á milli og sumir séu aðeins smeykir.
„Innst inni þá líður manni eins og það sé sama rútínan aftur,“ segir Helgi Hróar Sigurðsson.

Eysteinn Þór segir alla gera sitt besta í skólanum til að láta börnunum líða vel.
„Þeim finnst þetta svolítið fjarlægt að það sé eitthvað að fara að gerast í bakgarðinum okkar. Þau eru orðin svolítið vön þessum skjálftum. Þannig eitthvað stórt og mikið er ekki ofarlega í huga hjá þeim. Það er svolítið gott.“