Forsætisráðherrann sagði fyrr í vikunni að Ísraelar myndu þurfa að hafa umsjón með öryggisástandinu á svæðinu um óákveðinn tíma að átökum loknum en ummælin mættu nokkurri andstöðu hjá stjórnvöldum vestanhafs.
Netanyahu sagði svo í samtali við Fox News í gær að borgaraleg yfirvöld þyrftu að verða til á svæðinu en Ísrael myndi tryggja að árásir á borð við þær sem áttu sér stað 7. október síðastliðinn myndu ekki endurtaka sig.
„Við leitumst ekki eftir því að sigra Gasa, við leitumst ekki eftir því að hernema Gasa og við leitumst ekki eftir því að stjórna Gasa,“ sagði forsætisráðherrann. Hann gaf þó í skyn að Ísraelsmenn myndu ekki veigra sér við því að fara inn á Gasa og „drepa morðingjana“ ef afl á borð við Hamas virtist í fæðingu.
Palestínsk yfirvöld segja Ísraelsmenn hafa gert árásir á eða við þrjá spítala á Gasa í morgun, meðal annars Al Shifa. Ísraelsher hefur ekki svarað ásökununum en hefur áður sagt að „hjarta“ aðgerða Hamas 7. október hafi verið á svæðinu umhverfis spítalann.
Þúsundir íbúa Gasa streymdu suður í gær, á sama tíma og Bandaríkjamenn greindu frá því að Ísraelsmenn hefðu fallist á að gera reglubundin fjögurra klukkustunda hlé á árásum sínum til að hleypa fólki burtu og neyðaraðstoð að.
Ekkert lát virðist þó á árásum enn sem komið er, ef marka má erlenda miðla.