Innlent

Fundu sand af seðlum og svo fíkni­efni

Árni Sæberg skrifar
Lögreglan hafði í nægu að snúast í gærkvöldi og í nótt.
Lögreglan hafði í nægu að snúast í gærkvöldi og í nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði í gærkvöldi ökumann vegna gruns um sölu og dreifingu fíkniefna, þar sem mikið magn reiðufjár var í bifreiðinni. 

Í dagbók lögreglu segir að ökumaðurinn hafi heimilað leit í bifreiðinni, þar sem meint fíkniefni hafi fundist falin við leit lögregluþjóna. Ökumaðurinn hafi verið vistaður í klefa í þágu rannsóknar málsins.

Fundu reiðufé, fíkniefni og vopn

Sá ökumaður var ekki sá eini sem kom sér í vandræði í gærkvöldi og í nótt. Í dagbókinni segir að annar slíkur hafi verið stöðvaður af lögreglu þar sem hann og aðrir farþegar í bifreiðinni hafi virst undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Við rannsókn málsins hafi komið í ljós mikið magn meintra fíkniefna, reiðufjár og vopna í bifreiðinni. Fólkið hafi verið vistað í klefa í þágu rannsóknar málsins.

Sá þriðji hafi verið stöðvaður vegna gruns um að hann væri undir áhrifum fíkniefna. Bifreiðin hafi einnig reynst á röngum skráningarnúmerum. Ökumaðurinn hafi heimilað leit í bifreiðinni þar sem meint fíkniefni fundust. Málið sé í rannsókn.

Loks segir af þeim fjórða sem hljóp úr bifreið þegar lögregla ætlaði að stöðva för hans við umferðareftirlit. Lögreglumenn hafi náð ökumanninum og hann hafi í kjölfarið verið handtekinn fyrir að fara ekki eftir fyrirmælum lögreglu um að stöðva. 

Ökumaðurinn hafi játað neyslu fíkniefna og sagst ekki vilja missa ökuréttindi sín. Ökumaðurinn hafi verið færður á lögreglustöð, þaðan sem hann hafi verið laus að blóðsýnatöku lokinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×