Í B riðli vann Brann nauman 1-0 sigur á heimavelli gegn Slavia Prague. Íslenska landsliðskonan, Natasha Anasi-Erlingsson, kom inn af varamannabekk Brann á 73. mínútu en tókst ekki að fremja sömu hetjudáðir og hún gerði í síðasta leik gegn St. Pölten. Í hinni viðureign riðilsins vann Lyon öruggan 2-0 sigur á St. Pölten, liðinu sem meinaði Íslandsmeisturum Vals þátttöku í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.
Brann og Lyon sitja því jöfn í efsta sæti B-riðils með 6 stig, Lyon er þó með töluvert betri markatölu eftir að hafa lagt Slavia Prague 9-0 að velli í fyrstu umferðinni. Lyon tekur á móti Brann í næstu umferð, miðvikudaginn 13. desember.
Í A riðlinum gerðu Guðrún Arnardóttir og liðsfélagar hennar í Rosengard sér ferð til Benfica og töpuðu þar naumlega með einu marki gegn engu. Guðrún var að venju í hjarta varnarinnar hjá Rosengard en kom því miður engum vörnum við sigurmarki Franciscu Nazareth.
Eintracht Frankfurt komst óvænt yfir gegn ríkjandi meisturum Barcelona. Þær spænsku gerðu sér svo lítið fyrir í seinni hálfleiknum, skoruðu þrjú mörk strax í upphafi og gerðu útaf við leikinn. Þær eru með 6 stig í efsta sæti riðilsins, Benfica og Rosengard eru jöfn með 3 stig þar fyrir neðan.