Forstjóri bandaríska sprotafyrirtækisins Earthgrid býður Íslandi að verða fyrst Evrópuríkja til að reyna kyndilborun jarðganga. Hann hefur í því skyni fundað undanfarna daga hérlendis með fulltrúum íslenskra stjórnvalda og orku- og veitufyrirtækja. Earthgrid stefnir að því að fyrsti kyndilborinn verði tilbúinn fljótlega á nýju ári.

Í fréttum Stöðvar 2 kom fram að innviðaráðherra vonast til að þá skýrist hvort tæknin standi undir gefnum fyrirheitum.
„Mér finnst allavegana tækifærið og sóknarfærið sem liggur í þessu það spennandi að við getum ekki setið hjá og fylgst ekki með. Og það er það sem við erum að gera,“ segir Sigurður Ingi.
Í fyrstu hyggst Earthgrid grafa lagnagöng sem yrðu tveir og hálfur metri í þvermál. En felast í því táknræn skilaboð að ráðherrarnir Sigurður Ingi og Guðlaugur Þór skrifuðu undir viljayfirlýsingu við fyrirtækið í Vestmannaeyjum síðastliðið sumar?

„Það er auðvitað þannig að við erum bæði núna í vandræðum með vatnsleiðslu og rafmagnsleiðslur til Vestmannaeyja vegna þess að það er erfitt að láta þær liggja í sjó. Það væri auðvitað gríðarlega spennandi að koma slíkum lögnum fyrir til langrar framtíðar í göngum,“ svarar ráðherrann.
„Það hittist nú reyndar þannig á að við þurftum að vera í Vestmannaeyjum vegna jarðarfarar Árna Johnsen og það var kannski táknrænt líka þar sem hann stóð nú dálítið fyrir áhuga á jarðgöngum,“ bætir Sigurður Ingi við.

Reynist tæknin raunhæf til að grafa veggöng blasa við ný tækifæri.
„Samkvæmt fyrirtækinu hafa þeir verið að tala um 70 til 80 jafnvel 90 prósent ódýrari jarðgöng. Ég á nú kannski erfitt með að trúa því.
En væru þau til að mynda helmingi ódýrari þá væri auðvitað möguleikinn á að fara í þessa jarðgangnaáætlun okkar, að gera hér tíu-fimmtán jarðgöng á þrjátíu árum, þá er hún auðvitað orðin miklu raunhæfari og auðveldari hérna á allan hátt,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: