Maðurinn og konan gengu í hjónaband árið 2013, en rúmum sjö árum seinna, árið 2021, slitnaði upp úr hjónabandinu. Þau sóttu þó ekki um skilnað strax en maðurinn flutti af heimili þeirra til Þýskalands þetta sama ár. Hjónabandinu lauk síðan í upphafi árs 2022, en ekki endanlega fyrr en í nóvember á þessu ári.
Þetta er á meðal þess sem kemur fram í stefnu málsins sem hefur verið birt í Lögbirtingablaðinu. Þar segir jafnframt að konan hafi flutt inn með núverandi sambýlismanni sínum á sama tíma og skilnaðurinn gekk formlega í gegn.
Það var síðan í ágúst á þessu ári þegar sonur konunnar fæddist og þar sem að konan og fyrrverandi eiginmaðurinn voru tæknilega séð enn gift var hann sjálfkrafa skráður sem faðir barnsins.
Konan er sannfærð um að hann sé ekki faðirinn og sambýlismaður hennar bíður þess að verða skráður sem slíkur.
Fram kemur að konan sjái sig nauðuga til að höfða málið til þess að barnið sé rétt feðrað. Hún krefst þess að gerð verði erfðarannsókn á málsaðilum til að skera úr um hver faðirinn sé.
Manninum hefur verið gert að sækja dómþing í Héraðdómi Reykjavíkur í janúar á þessu ári vegna málsins. Í stefnunni segir að ef hann mæti ekki megi búast við því að kröfur konunnar gangi í gegn.