Á föstudaginn var greint frá því að spænska lögreglan hafi handtekið fjórtán manns og rannsakað aðra tuttugu fyrir að hafa stolið tæplega tveggja milljóna evra virði af farangri á Tenerife Sur-flugvellinum. Allir voru þeir starfsmenn flugvallarins.
Harpa Rós Júlíusdóttir hefur undanfarið reynt að koma upplýsingum til lögreglunnar á Tenerife frá Íslendingum sem hafa lent í klóm þjófanna.
Hún starfaði á flugvellinum á Tenerife í sjö ár en býr um þessar mundir á Íslandi. Hún ákvað í byrjun árs að setja sig í samband við gamlan vin í lögreglunni ytra til þess að reyna að stöðva öldu þjófnaðar úr töskum á flugvellinum.
Í samtali við Morgunblaðið, í tengslum við handtökurnar, greinir Harpa Rós frá því að ábendingarnar frá henni hafi veitt lögreglu mikilvægar upplýsingar um það sem var á seyði á flugvellinum. Hún kveðst þó ekki búa yfir frekari upplýsingum um málið en þær sem komið hafa fram í fjölmiðlum.