Navalní, sem hefur um nokkurt skeið verið höfuðandstæðingur Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta, hefur setið inni frá árinu 2021.
„Lögfræðingur hans fékk að heimsækja hann í dag. Það er í lagi með hann,“ tilkynnir talskonan Kira Yarmysh á samskiptamiðlinum Telegram. Hann hafi verið færður til IK-3 fanganýlendunnar í sjálfstjórnarhéraðinu Yamalo-Nenets í norður-Rússlandi.
Áður sat Navalní inni í Melekhovo, 235 kílómetra austur af Moskvu, höfuðborg Rússlands.
Umrædd nýlenda þykir ein sú afskekktasta sem um getur og aðstæðum er lýst sem grimmilegum.
Ivan Shadov aðstoðarmaður Navalny segir í samtali við BBC að meðferð Navalny færi sönnur á það hvernig farið sé með pólitískir andstæðinga sem settir eru á bak við lás og slá. Þeir séu bældir niður og einangraðir.
Refsing hins 47 ára gamla Navalnys var þyngd um nítján ár í ágúst á þessu ári innan veggja hámarksöryggisfangelsisins þar sem Navalní var byrjaður að afplána níu ára dóm.
Hann var þá fangelsaður eftir að hafa hlotið tveggja og hálfs árs dóm fyrir brot á skilorði vegna annars dóms frá árinu 2014. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur gagnrýnt þá sakfellingu og sagt dóminn gerræðislegan.
Ástæða þess að Navalíni rauf skilorðið var sú að eitrað hafði verið fyrir honum og hann lá við dauðans dyr á sjúkrahúsi í Þýskalandi. Navalní hefur sakað Pútin Rússlandsforseta um að bera ábyrgð á eitruninni þar sem notast var við taugaeitrið Novichok. Það var einnig notað til að eitra fyrir fyrrverandi njósnaranum Sergei Skripal og dóttur hans.