Selenskí greindi frá þessu í nýársávarpi sínu til úkraínsku þjóðarinnar í gær. Sagði hann að Úkraínumenn myndu smíða milljón dróna hið minnsta á árinu 2024 sem yrðu notaðir í stríðsrekstrinum vegna innrásar Rússa í Úkraínu.
Árásir Rússa héldu áfram í gær þar sem fréttir hafa borist af því að fimm hafi látið lífið, annars vegar í Odesa í suðurhluta landsins og svo í Donetsk-héraði í austri.
„Á næsta ári mun óvinurinn finna fyrir heift innlendrar framleiðslu,“ sagði Selenskí í ávarpi sínu. Sagði hann að auk þess að framleiða rúmlega milljón dróna á nýju ári þá muni úkraínski herinn fá sendar F-16 orrustuþotur frá vestrænum bandamönnum sínum.
„Orrustuflugmenn okkar eru nú þegar að ná góðum tökum á F-16 og við munum klárlega sjá þær í loftrými okkar,“ sagði Selenskí sem hvatti jafnframt Vesturlönd til að halda stuðningi sínum við Úkráinu áfram á nýju ári.
Rússar hafa sett aukinn kraft í árásir sína í Úkraínu á síðustu dögum. Rússneski herinn stóð fyrir samhæfðum árásum víða um Úkraínu á föstudag þar sem 39 létu lífið í höfuðborginni Kænugarði og var árásunum lýst sem umfangsmestu loftárásum Rússa á úkraínsku höfuðborgina frá upphafi innrásar.
Úkraínuher svaraði árásunum með loftárásir á borgina Belgorod í suðvesturhluta Rússlands. Er talið að 24 hafi látist og á annað hundrað hafi særst í þeim árásum.