Ágúst Sigurðsson er forstöðumaður nýju stofnunarinnar og er með skrifstofuna sína í Gunnarsholti á Rangárvöllum þar sem Landgræðsla ríkisins var til húsa. Ágúst er engin nýgræðingur þegar kemur að stjórnun en hann var meðal annars rektor Landbúnaðarháskóla Íslands og sveitarstjóri í Rangárþingi ytra svo eitthvað sé nefnt.
„Þetta er stofnun sem snýst um það að bæta jarðvegs og gróðurauðlind Íslands, það er verkefnið í rauninni, hið stóra verkefni. Og stefnan er sú að ná framúrskarandi árangri í því, það er okkar verkefni,” segir Ágúst.
Og Ágúst segir að ný stofnun taki fagnandi á móti verkefnum skógræktarinnar og landgræðslunnar og síðan muni einhver ný og spennandi verkefni bætast við.
„En það sem er svo stórkostlega við þessa sameiningu er það að fólkið, sem að vinnur hjá þessari stofnun, nýju stofnuninni, Landi og skógi og starfaði áður hjá landgræðslunni og skógræktinni, þetta fólk brennur fyrir sitt starf. Það er vakið og sofið yfir þessu verkefni að bæta gróður og jarðvegsauðlindir Íslands,” bætir Ágúst við.

Það vekur sérstaka athygli á nýja stofnunin er ekki með neinar ákveðnar höfuðstöðvar.
„Við erum með stafrænar höfuðstöðvar, það er bara þannig og það er bara algjörlega satt og rétt. Þeir sem að vilja hitta okkur eða tala við okkur þeir hafa samband við okkur iðulega með stafrænum hætti,” segir Ágúst.