Lögregla hefur gert fréttafólki og starfsmönnum við varnargarðana að rýma svæðið tafarlaust. Hraun stígur upp aðeins fáeinum tugum metra frá húsum.

Sjá má sprunguna í spilaranum að neðan.
Fannar Jónasson bæjarstjóri Grindavíkur, ræddi við Erlu Björg Gunnarsdóttur í beinni útsendingu í aukafréttatíma Stöðvar 2 þegar fyrstu fréttir bárust af nýju sprungunni.
„Þetta er hræðilegt að sjá. Ég þekki þessi hús mjög vel, ég sé næstum í húsið mitt,“ segir Fannar þegar honum voru sýndar myndir af sprungunni sem nær nánast að efstu húsunum í nýjasta hverfi bæjarins, Hópshverfi.“

„Þetta er hræðileg staða. Það blasir við að húsin virðast vera mjög nálægt.“
Sprungur af völdum umbrotanna í morgun
Greint er frá því á vef Veðurstofunnar að nýja gossprungan sé sunnan við fyrstu sprunguna frá því í morgun. Nýja sprungan er rétt utan bæjarmarkanna.

„Aflögunarmælingar benda eindregið til þess að sprungur innan bæjarmarkanna í Grindavík hafi gliðnað af völdum umbrotanna í morgun. Því má reikna með að fleiri sprungur hafi opnast og ef til vill nýjar myndast.“
Öll nýjustu tíðindi af eldgosinu má finna í vaktinni á Vísi.