Krafa um að Ísland taki ekki þátt í Eurovision vegna Ísraels hefur verið hávær síðustu vikur og mánuði. Umdeild tilkynning RÚV um að lokaákvörðun í málinu verði tekin eftir Söngvakeppnina í mars hleypti nýju lífi í umræðuna í vikunni. Og þá flækir það stöðuna enn frekar að Palestínumaðurinn Bashar Murad verði á meðal þátttakenda í téðri Söngvakeppni, eins og Vísir sagði frá í fyrradag.
Stefán Eiríksson útvarpsstjóri, Margrét Kristín Blöndal, tónlistarkona og aðgerðasinni, og Baldur Þórhallsson stjórnmálafræðingur ræða þetta hitamál í beinni útsendingu í Pallborðinu.
Við förum yfir þá sérkennilegu stöðu sem upp er komin í aðdraganda keppninnar, fáum viðbrögð aðgerðasinna við tilkynningu RÚV og þátttöku Bashars Murad og reynum að svara því hvaða þýðingu sniðganga hefði fyrir Ísland á alþjóðasviðinu. Pallborðið í beinni útsendingu hér á Vísi og sjónvarpsstöðinni Stöð 2 Vísi klukkan 14.