Viðvörun við Faxaflóa er í gildi til klukkan eitt í dag en á svæðinu er suðvestan átján til tuttugu og fimm metrar á sekúndu og éljagangur. Viðvaranir fyrir Austurland að glettingi og Norðurland eystra gilda í allan dag og er fólk hvatt til að sýna aðgát.
Gular viðvaranir voru í gildi á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurlandi í morgun þar sem þreifandi bylur var og lítið sem ekkert skyggni.
Lúðvík Kristinsson er varðstjóri hjá umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
„Þetta var bara hörku hvellur og svakalega blint. Umferðin var mjög hæg og seinfarin, hálf partinn lá niðri á köflum. Fólk seilaðist áfram á 20-30 kílómetra hraða um allar götur en merkilega lítið um árekstra þannig lagað, þannig þetta slapp fyrir horn. Ég held að fólk hafi sýnt aðgát og haldið sig heima á meðan þetta gekk yfir.“
Áfram erfið spá
Fréttastofu bárust í morgun ábendingar frá vegfarendum á Reykjanesbrautinni þar sem færð var sögð erfið og ekkert skyggni. Lúðvík segir allan gang á því hvernig bílar séu búnir. Öllu máli skipti að vera á góðum dekkjum. Dregið hefur úr veðrinu á höfuðborgarsvæðinu en Lúðvík segir áfram þörf á að fara með gát.
„Mér sýnist á spánni að það gæti veri áframhald á þessu, miðað við spána sem ég horfði á í morgun. Ég held að ökumenn þurfi bara að vera vakandi yfir veðrinu sem framundan er.“