Snjóflóðið féll á níunda tímanum í gærkvöldi. Bragi Þór Thoroddsen sveitarstjóri Súðavíkurhrepps segir mildi að flóðið hafi ekki farið á bíla sem voru á veginum þegar snjóflóðið féll.
„Það voru allavega tveir bílar þarna sitt hvoru megin við flóðið. Maður veit ekki hversu margir aðrir hafa verið á hlíðinni.“
Hann segir nokkra hafa orðið veðurteppta í bænum vegna þessa.
„Þetta er hundrað og áttatíu manna þorp hérna. Hundrað og níutíu manns kannski. Við voru með þrjátíu og fimm manns í nótt. Hér er ekki gistiheimili eða hótel. Það þarf að koma þessu fólki fyrir. Við erum orðin allt of vön því. Við kunnum þetta. Þetta er ekki eitthvað hlutverk sem við ættum að standa í. Hér starfar ekki Rauði krossinn. Við erum bara fólkið hérna í þorpinu sem gerir þetta.“
Þannig veiti íbúar bæjarins strandaglópum jafnan frítt fæði á og húsnæði þegar svona kemur upp.
„Þar fyrir utan þá þýðir þetta það að við förum ekki á Ísafjörð eða annað. Þetta varðar miklu meira en bara okkur.“

Bragi segir alltof algengt að veginum um Súðavíkurhlíð sé lokað vegna aðstæðna. Til að mynda hafi veginum fyrstu þrjá mánuði ársins 2020 verið lokað fyrir umferð í fjörutíu daga. Íbúar hafi flestir fundið fyrir því hversu erfið hlíðin geti verið og þeirri hættu sem fylgir því að keyra hana. Þá búi þeir við hættu á grjóthruni þegar enginn snjór er.
„Flestir sem hafa búið hér í einhvern tíma hafa annað hvort fests í flóði eða rétt sloppið.“
Bragi segir íbúa Súðavíkur lengi hafa kallað eftir jarðgöngum á milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar. Mikilvægt sé að hafist sé handa við göngin sem fyrst til að auka öryggi.
„Það er búið að tala um Álftafjarðargöng hérna í einhverja þrjá áratugi líklega eða lengur, fjóra sennilega. Þetta er búið að vera inn og út af samgönguáætlun. Þetta er inni á samgönguáætlun núna, inni á jarðgangnaáætlun, en ég held að þetta sé tímasett einhver staðar í framtíðinni. Sennilega eftir minn dag.“
