Manchester City vann öruggan sigur á Jóhanni Berg Guðmundssyni og félögum hans í Burnley í kvöld. Norðmaðurinn Erling Haaland sneri aftur á völlinn eftir meiðsli.
Kevin De Bruyne var í byrjunarliði City í dag og Erling Haaland var mættur á varamannabekkinn eftir fjarveru vegna meiðsla. Það var hins vegar Argentínumaðurinn Julian Alvarez sem kom City á bragðið í dag. Hann skoraði tvö mörk með stuttu millibili í fyrri hálfleiknum. Alvarez fagnar 24 ára afmæli sínu í dag og gaf sjálfum sér heldur betur góða afmælisgjöf.
Staðan í hálfleik var 2-0 en strax í upphafi síðari hálfleiks gekk hinn spænski Rodri frá leiknum með þriðja marki City eftir sendingu frá Phil Foden.
FT: Manchester City 3-1 Burnley.
— (@TheEuropeanLad) January 31, 2024
8 victories in a row, 24 goals scored, 4 goals conceded + Erling Haaland & Kevin de Bruyne fully fit and back. pic.twitter.com/flWtmsJ2z5
Jóhann Berg Guðmundsson var í byrjunarliði Burnley en var tekinn af velli á 59. mínútu í stöðunni 3-0. Erling Haaland kom inn af varamannabekknum fyrir Kevin De Bruyne á 71. mínútu en sá norski hefur ekki spilað síðan 6. desember.
Undir lokin skoraði Ameen Al Dakhil sárabótamark fyrir Burnley sem dugði þó skammt. Lokatölur í kvöld 3-1 og City fer því aftur upp í annað sæti deildarinnar en liðið er jafnt Arsenal að stigum en með betri markatölu.