Þetta kemur fram í nýjum tölum Rannsóknarseturs verslunarinnar. Þar kemur fram að erlend netverslun í fyrra hafi numið 27,4 milljörðum króna. Rúmlega sex milljarðar hafi farið til Kína, um 4,2 milljarðar til Bandaríkjanna og um 3,2 milljarðar til Bretlands.
Þýskaland er í fjórða sæti með verslun upp á 2,2 milljarða og Hollendingar stökkva upp í fimmta sætið á kostnað Víetnam frá árinu 2022. Netverslun Íslendinga við Holland nam 1,6 milljarði króna.
Kína sat einnig á toppnum fyrir árið 2022 með 6,2 milljarða króna af 23,9 milljörðum sem fóru í erlenda netverslun. Netverslun við Kína minnkar því lítið eitt á milli ára en erlend netverslun í heild eykst um fimmtán prósent. Ali Express er meðal vefverslana frá Kína sem Íslendingar nýta sér óspart.
Aukningin er meiri í netverslun innanlands. Innlend netverslun í fyrra nam 50,4 milljörðum króna og hækkaði um 21 prósent á milli ára. Verslun á netinu í dagvöruverslunum innanlands hefur aukist um 49 prósent á milli ára.
Telur Rannsóknarsetur verslunarinnar ljóst að landsmenn hafi verið duglegir að nýta sér tækni dagvöruverslana á árinu sem leið, svo sem að fylla matarkörfuna heima hjá sér á heimasíðu verslunar og láta senda heim.
Innlend netverslun nemur því um 65 prósent af allri netverslun Íslendinga en sú erlenda 35 prósentum.