Frá þessu er greint á Kirkjan.is.
Í tilkynningu sem birtist á vefnum í gær segir að tilnefningum hafi lokið á hádegi. Af þeim 164 sem hefðu mátt tilefna hefðu 160 nýtt rétt sinn en þegar fulltrúar kjörstjórnar og starfsmaður Biskupsstofu mættu til Advania til að „rækja hlutverk sitt varðandi afkóðun og talningu tilnefninga“ hefði komið babb í bátinn.
„Þegar kalla átti fram niðurstöður tilnefninganna kom upp tæknilegt vandamál og tókst því ekki að telja tilnefningarnar eins fljótt og gert hafði verið ráð fyrir.
Samkvæmt nefndum starfsreglum skal talningu vera lokið innan sólarhrings frá því að tilnefningum lauk,“ segir í tilkynningunni.
Síðar birtist önnur tilkynning þar sem greint var frá því að vegna vandamálsins væri ekki unnt að telja tilnefningarnar með öruggum hætti. Því teldi kjörstjórn rétt að endurtaka tilnefningarnar eins fljótt og unnt væri, og stefnt að því að hefja ferlið fyrir vikulok.
Advania hefði þegar sett í gang vinnu við að laga það sem fór úrskeðis.
Nokkrir hafa lýst því yfir að þeir muni taka við tilnefningum til biskupskjörs; Bjarni Karlsson, Elínborg Sturludóttir, Guðrún Karls Helgudóttir, Guðmundur Karl Brynjarsson, Helga Soffía Konráðsdóttir, Kristján Björnsson og Ninna Sif Svavarsdóttir. Þá hefur Svavar Alfreð Jónsson einnig verið nefndur.
Uppfært: Í fyrri útgáfu gleymdist nafn Guðrúnar Karls Helgudóttur. Við biðjumst afsökunar á mistökunum.