Birgir Ragnar Baldursson, faðir Sindra Snæs, bar vitni í máli ákæruvaldins á hendur syni hans í morgun. Sindri Snær sætir ákæru fyrir tilraun til hryðjuverka og fjölda vopnalagabrota. Karl Ingi Vilbergsson, sem sækir málið fyrir hönd ákæruvaldsins, spurði Birgi Ragnar helst út í skotvopn sem fundust við húsleit heima hjá Sindra.
Sindri fullyrti fyrir dómi í gær að þrír rifflar, sem ákæruvaldið vænir hann um að eiga, væru í eigu föður hans.
Sindri sagði föður sinn hafa átt vopnin en hann hafi búið heima hjá honum þar sem hann hafi verið á milli húsnæða. Byssuskápur með rifflunum hafi fylgt með búslóðinni og verið komið fyrir inni í herberginu hans vegna plássleysis. Herbergi föður hans hafi verið lítið og þeir hafi ekki viljað geyma skápinn inni í stofu, í eldhúsinu eða á baðherberginu. Birgir Ragnar bar nákvæmlega eins fyrir dómi í dag.
Þá sagði hann að Sindri Snær hefði ekki haft aðgang að byssuskápnum. Þegar hann ferðaðist tæki hann lykilinn að skápnum ávallt með sér.
Sagðist hafa staðgreitt en vopnasalinn segir Sindra hafa greitt
Sækjandi spurði Sindra Snæ ítrekað í gær hvort að faðir hans hefði keypt rifflana fyrir hann, en faðir hans er með skotvopnaleyfi en ekki Sindri. Sindri sagði ekkert til í því og faðir hans væri eigandi vopnanna.
Sækjandi spurði Birgi að því sama. Birgir sagðist eiga rifflana og að hann hefði greitt fyrir alla rifflana þrjá. Sindri Snær hafi vissulega keypt CZ-557 riffil í Grænlandi en hann greitt fyrir hann. Riffillinn hafi verið fluttur inn í gegnum innflutningsleyfi Jóels Einars Halldórssonar byssusala.
Hina tvo rifflana, eftirlíkingar af AK-47 og AR-15 rifflum, hafi hann keypt af téðum Jóel en Sindri Snær hafi verið í samskiptum við Jóel varðandi kaupin. Hann hafi sjálfur staðgreitt rifflana.
Jóel Einar bar einnig vitni í dag. Hann sagðist telja að Sindri Snær hafi millifært kaupverð rifflanna inn á reikning hans. Hann hefði verið í samskiptum við Sindra vegna kaupanna, enda hefðu þeir verið vinir um árabil.
Þá sagði Jóel að það tíðkaðist í bransanum að menn með byssuleyfi keyptu byssur fyrir hönd annarra.
„Eins og þegar pabbi hjálpar syni sínum að kaupa bíl, hver er skráður fyrir bílnum?“
Leist ekkert á breyttan riffilinn
Birgir Ragnar sagðist hafa verið viðstaddur þegar Sindri Snær breytti AR-15 rifflinum svo hann væri hálfsjálfvirkur en ekki einskotariffill. Það hefði verið gert með hans samþykki og vegna forvitni Sindra Snæs. Hann lýsti syni sínum sem „gormi“ og sagði hann hugsa út fyrir boxið og sniðugan.
Sindri Snær hafi fengið að prófa hálfsjálfvirkan riffil heima hjá Guðjóni Valdimarssyni, sem er stórtækur vopnasali og -safnari auk þess að vera faðir Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur, ríkislögreglustjóri. Embætti ríkislögreglustjóra þurfti að segja sig frá rannsókn málsins vegna vanhæfis æðsta embættismanns embættisins.
Sindri Snær sagði í gær að hann hefði farið í heimsókn til Guðjóns og séð þar stórt, mikið og flott byssusafn.
Birgir Ragnar sagði að eftir að hafa fengið að prófa hálfsjálfvirkan riffil hafi Sindra Snæ langað að breyta AR-15 rifflinum í slíkan. Það hafi hann og gert undir vökulu auga föður síns.
Þeir feðgar hafi svo farið tveimur dögum seinna, þann 6. september 2022, að skotsvæðinu í Höfnum og prófað riffillinn. Honum hafi ekkert litist á það að eiga hálfsjálvirkan riffil og því beðið Sindra Snæ að breyta honum aftur í venjulegan riffil. Sindri Snær lýsti því í gær að það hafi verið einföld aðgerð.