Fyrr á tímabilinu greindi Klopp frá því að þetta yrði hans síðasta tímabil sem þjálfari Liverpool, en hann hefur stýrt liðinu frá árinu 2015. Undi hans stjórn hefur liðið unnið allt sem hægt er að vinna, þar á meðal ensku úrvalsdeildina og Meistaradeild Evrópu.
Eðlilega hafa margir knattspyrnuáhugamenn velt því fyrir sér hver muni taka við stjórnartaumunum af Klopp og þykir flestum líklegast að Xabi Alonso, fyrrverandi leikmaður Liverpool og núverandi stjóri Bayer Leverkusen í Þýskalandi, taki við þegar Klopp hverfur á braut.
Þó hafa önnur nöfn einnig verið nefnd til sögunnar og þar á meðal hefur nafn Ange Postecoglou komið upp. Ange tók við Tottenham síðasta sumar eftir að hafa unnið þrennuna með Celtic.
Breski miðillinn The Telegraph greinir þó frá því að forráðamenn Tottenham séu fullvissir um að þjálfarinn fari ekki fet í sumar. Undir hans stjórn hefur Tottenham litið mun betur út en undanfarin ár og liðið er í harðri baráttu um sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili.