Þetta staðfesta bæði Ragnhildur Helgadóttir, rektor HR, og Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Bifrastar, í samtali við fréttastofu.
„Við erum bara afar þakklát fyrir að geta mátað okkur við skólagjaldaleysi. Nemendur okkar borga skatta eins og nemendur í opinberu háskólunum og því mikið réttlætismál fyrir þá að við skoðum þetta tilboð alvarlega. Þetta hentar einnig háskólanum á Bifröst því við erum í sameiningarviðræðum við Háskólann á Akureyri. Fjarnám er mikið jafnréttismál. Í því eru vinnandi nemendur, nemendur með börn. Því er til mikils að vinna fyrir þá að þurfa ekki að skuldsetja sig,“ segir Margrét.
Stjórn skólans fundar á föstudag og þykir henni líklegt að ákvörðunin verði kynnt um helgina. Sömuleiðis fundar stjórn HR á næstu dögum.
Nú þegar hefur einn sjálfstætt starfandi skóli, Listaháskóli Íslands, samþykkt tilboð ráðherra og munu skólagjöld þar falla niður á næsta skólaári. Nemendur greiða einungis 75 þúsund krónur í skráningargjald við upphaf skólaárs.