Í umfjöllun sænska ríkisútvarpsins um málið kemur fram að Ulf hafi verið í opinberri heimsókn til Bandaríkjanna. Þangað ferðaðist hann með sérstakri einkaþotu sænska ríkisins. Í Bandaríkjunum fundaði hann með Joe Biden, Bandaríkjaforseta, meðal annars vegna umsóknar Svíþjóðar um inngöngu í NATO.
Birgitta hafi flogið með honum og gist með honum á hóteli. Hún hafi hinsvegar ekki verið í opinberum erindagjörðum í Bandaríkjunum og því hafi Ulf reglum samkvæmt borið að draga ferðakostnað og 25 prósent af heildarverði hótelgistingu hennar frá launum sínum. Um er að ræða sextán þúsund sænskar krónur eða rúmar tvö hundruð þúsund íslenskar krónur.
Þess í stað lagðist kostnaðurinn á sænska ríkið. Fram kemur að miðillinn hafi óskað eftir tölvupóstum starfsmanna sænska forsætisráðuneytisins sem viðriðnir voru skipulagningu ferðalaganna. Því hafi verið hafnað af sænska forsætisráðuneytinu þar sem ekki sé um að ræða opinber gögn.
Þá greinir SVT frá því að forsætisráðherrann hafi ekki viljað veita viðtal vegna málsins. Haft er eftir talsmanni ráðherra að um misskilning á milli embættismanna hafi verið um að ræða. Kristersson hafi að endingu greitt fyrir ferðalagið. Þá hefur miðillinn eftir upplýsingafulltrúa forsætisráðherrans að skerpt verði á verklagi sem viðkemur ferðalögum sem þessum.