The Guardian greinir frá því að í belgískum fjölmiðlum komi fram að Chair hafi verið dæmdur í tveggja ára fangelsi, þar af er annað skilorðsbundið. Þá þarf hann að greiða fórnarlambinu tæplega tvær og hálfa milljón króna í skaðabætur.
QPR s Ilias Chair has been sent to prison after being found guilty of breaking a truck driver's skull with a rock.
— The #EFL Zone (@TheFLZone) February 23, 2024
He s been sentenced to a year with a further 12 months suspended.
(via @talkSPORT) pic.twitter.com/fTK8s3UkMl
Í frétt Guardian segir að hinn 26 ára gamli Chair hafi slegið mann sem kallaður er Neils T í dómsskjölunum með steini í höfuðið er hópslagsmál áttu sér stað árið 2020.
Chair – sem er fæddur í Belgíu - var hluti af hóp sem sigldi með kajak frá Belgíu til Frakklands. Ekki kemur fram hvernig en þeir lentu upp á kant við hóp af ferðamönnum sem voru á leið aftur í rútu sína í bænum Bazeilles.
Í dómnum segir að Neils sé enn að glíma við afleiðingar höfuðhöggsins en hann höfuðkúpubrotnaði og missti meðvitund. Chair neitaði sök en myndbandsupptaka staðfesti að hann hefði slegið Neils í höfuðið.
Chair hefur áfrýjað dómnum og á meðan það er ekki komin lokaniðurstaða í málið segir QPR að hann komi því til greina í leikmannahóp liðsins. Fyrir utan það hefur félagið sagt að það muni ekki tjá sig fyrr en lokaniðurstaða er komin í málið.
Leikmaðurinn hefur komið við sögu í 31 deildarleik hjá QPR á þessari leiktíð og komið með beinum hætti að níu mörkum.