Kosningabaráttan hefst ekki fyrr en á föstudaginn.
Annar mannanna, Miguel Angel Reyes Zavala, var skotinn fyrir utan vinnustað hans í gær. Tveir menn eru sagðir hafa ekið upp að bíl hans, skotið hann til bana og keyrt á brot. Hann var í framboði fyrir Morena flokkinn, flokk Andres Manuel Lopez Opradors, forseta Mexíkó.
Hinn hét Armando Perez Luna og var hann í framboði fyrir stærsta stjórnarandstöðuflokk landsins (PAN). Luna fannst einnig í bíl sínum, þar sem hann hafði verið skotinn, nokkrum klukkustundum eftir að Zavala var myrtur, samkvæmt frétt AFP fréttaveitunnar.
Forsvarsmenn PAN hafa fordæmt morðin og segjast hafa varað við þörf á aukinni öryggisgæslu í marga mánuði.
AFP segir að frá því í júní í fyrra hafi að minnsta kosti þrjátíu manns verði myrtir í tengslum við kosningar í Mexíkó. Þar af minnst sextán frambjóðendur.
Fyrir kosningar vorið 2021 voru fjölmargir frambjóðendur myrtir og sagði Obrador þá að glæpagengi vildu hræða fólk frá því að taka þátt í kosningum.
Sjá einnig: Frambjóðendur myrtir í massavís í aðdraganda kosninga í Mexíkó
Glæpagengi eru mjög valdamikil í Mexíkó og glæpamenn oftar en ekki þungvopnaðir. Gengi þessi afla ekki eingöngu tekna með sölu og smygli fíkniefna heldur kúga þau fé af almenningi og eigendum fyrirtækja. Áhrif í borgarstjórnum skipta því miklu máli.
Opinberar tölur segja að frá því yfirvöld í Mexíkó hófu átak gegn gengjum árið 2006 hafi fleiri en 420 þúsund morð verið framin í ríkinu.
Í frétt CBS segir að átök milli tveggja mismunandi gengja hafi valdið miklum usla í Michoacan að undanförnu. Talið er að pólitískt ofbeldi hafi náð nýjum hæðum í fyrra og allt bendi til þess að þetta ár verði jafnvel verra.