Aðstæðurnar eru þær að Liverpool hefur spilað fjóra leiki á innan við tveimur vikum og þá eru gríðarleg meiðsli að herja á leikmenn liðsins.
„Fjórir leikir á 11 dögum er virkilega erfitt ef miðað er við stöðuna á leikmannahópnum. Sigurinn í dag var sérstakur, þetta var aldrei auðvelt. Þetta er svo erfitt. Hvernig við höfum unnið alla fjóra leikina skil ég ekki, erfitt að trúa því,“ sagði Klopp eftir leik en hann var augljóslega himinlifandi með sigur dagsins.
„Ótrúleg stoðsending á lokasekúndu leiksins. Frábær tilfinning, ég er svo hamingjusamur. Gæti ekki beðið strákana um meira,“ sagði Klopp um sigurmarkið sem kom þegar níu mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma.
„Næsti sunnudagur verður stórleikur sama hvað. Þar á undan eigum við erfiðan leik í Prag. Við verðum að halda áfram en fyrst endurheimt,“ sagði Þjóðverjinn að lokum um komandi verkefni liðsins.
Liverpool mætir Sparta Prag í Evrópudeildinni í miðri viku og svo Manchester City í toppslag ensku úrvalsdeildarinnar um næstu helgi.