Enski boltinn

„Við­brögð leik­manna voru frá­bær“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ange var sáttur með leikmenn sína.
Ange var sáttur með leikmenn sína. Atkins/Getty Images

Tottenham Hotspur lenti undir gegn Crystal Palace í ensku úrvalsdeild karla í dag. Heimamenn létu það ekki á sig fá og unnu á endanum 3-1 sigur sem heldur Meistaradeildarvonum liðsins á lífi.

„Þrautseigja, smá gæði og trú. Þetta var ekki auðveldur leikur þar sem þeir sátu svo neðarlega. Við þurfum mark til að opna þá upp en þeir voru samt yfirvegaðir og agaðir,“ sagði Ange Postecoglou, þjálfari Tottenham, eftir leik.

„Markið sem Palace skoraði var eina skiptið sem þeir komu boltanum inn á okkar vallarhelming. Viðbrögð leikmanna voru frábær,“ sagði Ange en Tottenham skoraði tvívegis á þremur mínútum áður en þeirra helsti markaskorari gulltryggði sigurinn.

„Þetta var leikur sem við hefðum átt að vinna með meiri yfirburðum en við trúðum allan tímann og létum það ekki á okkur fá þó hlutirnir væru ekki að falla með okkur. Við vorum frábærir andlega í dag.“

Timo Werner skoraði sitt fyrsta mark fyrir Tottenham í dag.

„Mörk eru alltaf mikilvæg fyrir sóknarmenn. Mér fannst hann spila vel í dag. Hann missti aldrei trúnna og komst í rétt svæði,“ sagði Ange um frammistöðu Þjóðverjans ásamt því að hrósa Brennan Johnson sem lagði upp mark Werners.

„Á svona augnablikum þarftu leiðtoga og mörkin þrjú komu öll þökk sé leiðtogunum sem við höfum í hópnum. Son-Heung Min átti sitt mark skilið, hann lagði svo hart að sér. Það er leikmaðurinn sem þú vilt að fái boltann,“ sagði Ange að endingu.

Eftir sigurinn er Tottenham með 50 stig í 5. sæti deildarinnar, fimm minna en Villa sem situr sæti ofar þegar 12 umferðir eru eftir af leiktíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×