Þetta er meðal þess sem fram kemur í tilkynningu frá Veðurstofunni. Þar segir að á sunnudag sé spáð talsverðri snjókomu í norðaustur og austurátt og í kjölfarið hlýnun með rigningu. Þá má búast við að fleiri snjóflóð falli.
Hætta getur skapast
Þannig hafi skíðamenn við utanbrautarskíðun sett af stað tvö flekaflóð í Oddsskarði og eitt flekaflóð í Stafdal í gær. Töluvert hafi einnig snjóað á Norðurlandi eftir hlákuna í byrjun vikunnar.
Nokkur fremur þunn náttúruleg snjóflóð hafi fallið síðan þá á Tröllaskaga og í Eyjafirði. Einnig féll snjóflóð af mannavöldum í Illviðrishnúki í Siglufirði á þriðjudag.
Veðurstofan segir að þessi snjóflóð minni á að hætta geti skapast þegar farið er um snævi þaktar brekkur, séu þær nógu brattar, jafnvel þó þær séu nærri troðnum skíðabrekkum eða jafnvel í byggð.