Þrír spila til úrslita í sjónvarpsútsendingunni. Fyrirkomulagið er þannig að sá sem fær lægsta skorið í einum leik milli þessara þriggja dettur út. Það er því allt undir í einum leik.
Þeir sem áfram fara spila svo til úrslita. Konurnar mæta fyrst á sviðið og karlarnir mæta svo í kjölfarið.
„Þetta fyrirkomulag er sérstakt en keilurum finnst þetta skemmtilegt. Þetta er auðvitað mjög stressandi en líka afar sjónvarpsvænt. Þetta er hratt og skemmtilegt,“ segir Hörður Ingi Jóhannsson, sérfræðingur Stöðvar 2 Sports í keilunni.
Það skýrist ekki fyrr en í kvöld hverjir spila í úrslitunum en baráttan um miðana í úrslitin hefst klukkan 17.00.
„Það er rjóminn af okkar bestu mönnum að spila og þetta verður áhugavert. Það er einn ungur strákur, eiginlega bara krakki, að spila um að komast í úrslitin. Kvennamegin erum við svo með þrettán ára stelpu í undanúrslitunum þannig að ungdómurinn er heldur betur að stíga upp.“
Það stefnir í áhugavert kvöld og útsending hefst á Stöð 2 Sport klukkan 19.30.