Breiðfylking stéttarfélaga innan Alþýðusambandsins, með átján félög Starfsgreinasambandsins, Eflingu og Samiðn á bakvið sig, og Samtök atvinnulífsins hafa náð saman um meginlínur nýrra kjarasamninga. Vilhjálmur Birgisson formaður Starfsgreinasambandsins er bjartsýnn á að það muni takast að útkljá nokkur mál sem eftir væru.
Þeirra á meðal er krafa Eflingar um aukna uppsagnarvernd starfsmanna fyrirtækja þar sem engir trúnaðarmenn eru til staðar. Hann hefði trú á að samkomulag tækist um þetta.

„Það var lögð mikil vinna í það í gær að hálfu Samtaka atvinnulífsins. Vonandi náum við að skerpa einhvern veginn á þeirri grein. Það verður bara að koma í ljós. Það verður í raun eitt af fyrstu málunum sem verða núna til umfjöllunar þegar við setjumst niður aftur,“ segir Vilhjálmur.
Fundað hefur verið stíft undanfarna daga og fundur hófst á ný hjá ríkissáttasemjara klukkan níu í morgun. Vilhjálmur segir hins vegar enn óútkljáð með hvaða hætti sveitarfélögin ætli að liðka fyrir samningum.
Verkalýðshreyfingin krefst þess að hluti gjaldskrárhækkana sveitarfélaga um síðustu áramót verði dregin til baka, bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla verði brúað og skólamáltíðir verði gjaldfrjálsar. Sveitarfélögin verði að koma að þessum viðræðum með afgerandi hætti.
„Og aðkoma þeirra þarf að vera hafin yfir allan vafa. Því miður miðað við þann texta sem ég hef heyrt frá sveitarfélögum, þá er hann að mínu mati allt of loðinn,“ segir formaður Starfsgreinasambandsins.
Það sem verkalýðshreyfingin væri tilbúin til að skuldbinda sig til gagnvart sveitarfélögunum í þeim samningsdrögum sem nú lægju fyrir, veitti þeim umtalsverðan ávinning. Langt umfram það sem verkalýðshreyfingin krefðist á móti af sveitarfélögunum.

„Meðan við erum með óskýrt orðalag varðandi mál sem lúta að sveitarfélögunum er alveg ljóst að það verður ekki hægt að skrifa undir kjarasamninga,“ segir Vilhjálmur. Ekki væri hægt að kynna kjarasamninga ef það liggi ekki fyrir með afgerandi hætti hvort sveitarfélögin ætli að taka þátt í því brýna verkefni að ná niður verðbólgu og vöxtum.
Hann geri sér grein fyrir að það væri stórt og flókið mál að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla og það muni taka lengri tíma.
„En það er alveg ljóst að gjaldskrárlækkanirnar, útfærsla á þeim, þarf að liggja fyrir með afgerandi hætti. Sem og að yfirlýsing þeirra þarf að vera yfir allan vafa hafin um aðkomu þeirra að þessu málefni sem þú nefndir áðan,“ sagði Vilhjálmur Birgisson og vísaði þar til kröfunnar um gjaldfrjálsar skólamáltíðir.
Þar virðast nokkur sveitarfélög, aðallega þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er ráðandi í meirihlutasamstarfi, leggjast gegn því að skólamáltíðir verði almennt gjaldfrjálsar. Jafnvel þótt ríkið bjóðist, samkvæmt heimildum fréttastofu, til að standa undir tveimur þriðja af kostnaðinum við þá aðgerð.