Forsetinn fyrrverandi hefur ítrekað sagt að hann sé mótfallinn TikTok og hafa aðrir ráðamenn vestanhafs lýst yfir sambærilegum áhyggjum. Þeirra á meðal er Joe Biden, núverandi forseti.
Biden hefur sagst tilbúinn til að skrifa undir frumvarp um aðgerðir gegn TikTok en um 170 milljónir Bandaríkjamanna nota samfélagsmiðilinn. Kínverska fyrirtækið Bytedance á TikTok.
Til stendur að greiða atkvæði í fulltrúadeild Bandaríkjaþings um slíkt frumvarp í þessari viku. Frumvarpið myndi þvinga yfirvöld í Kína til að selja hlut sinn í fyrirtækinu, eigi samfélagsmiðillinn að vera aðgengilegt í Bandaríkjunum.
Tveir þriðju þingamanna þurfa að greiða atkvæði með frumvarpinu til að samþykkja það. Erfitt er að segja til um hvernig fer en samkvæmt frétt Reuters er framtíð þess í öldungadeildinni einnig óljós. Þar hafa þingmenn sagst vilja breytingar á frumvarpinu.
Trump lýsti því skyndilega yfir síðasta fimmtudag að hann væri mótfallinn því að grípa til aðgerða gegn TikTok. Sagði hann það vera vegna þess að Meta, sem rekur Facebook, Instagram og aðra miðla, myndi hagnast á því.
Í færslu á samfélagsmiðli sínum, Truth Social, kallaði Trump Mark Zuckerberg, forstjóra Meta, Zuckerschmuck, og sakaði hann Facebook um að hafa „svindlað“ í síðustu forsetakosningum. Þá lýsti forsetinn fyrrverandi því yfir að Meta væri „óvinur fólksins“.

TikTok vinsælla hjá íhaldsmönnum
Tímasetning kúvendingar Trumps vakti nokkra furðu. Hún kom einungis nokkrum dögum eftir að íhaldsami auðjöfurinn Jeff Yass, heimsótti Trump í Flórída. Eftir fund þeirra fór Trump fögrum orðum um auðjöfurinn og hafa fregnir borist af því að Yass ætli mögulega að gefa fé í kosningasjóði Trumps.
Sjá einnig: Biden situr á digrum sjóðum en Trump ver fúlgum í lögmenn
Yass á um 33 milljarða dala hlut í TikTok og hefur ítrekað hótað hægri sinnuðum stjórnmálamönnum vestanhafs að styðja þá ekki fjárhagslega, nema þeir séu mótfallnir áðurnefndu frumvarpi um samfélagsmiðilinn, samkvæmt frétt Intelligencer hjá NY Magazine.
Axios segir skilaboðum frá reiðum Bandaríkjamönnum hafa rignt yfir þingmenn í síðustu viku eftir að forsvarsmenn TikTok héldu því fram við notendur að yfirvöld í Bandaríkjunum væru að reyna að loka samfélagsmiðlinum.
Þá hefur miðillinn orðið vinsælli meðal íhaldsmanna í Bandaríkjunum. Margir fyrirferðarmiklir aðilar innan hreyfingar Trumps njóta mikilla vinsælda þar og ná til milljóna ungra Bandaríkjamanna í gegnum TikTok.
Einn innanbúðarmaður í Repúblikanaflokknum sagði blaðamanni Axios að Repúblikönum vegnaði vel á TikTok og myndefni þeirra næði til margra. Á sama tíma væru færslur frá íhaldsmönnum ritskoðaðar á Facebook.