Safna þarf 1500 meðmælum en þó lágmarksfjölda úr öllum fjórum landsfjórðungum. Þannig þarf 1233 undirskriftir úr Sunnlendingafjórðungi, 157 úr Norðlendingafjórðungi, 56 úr Vestfirðingafjórðungi og 54 úr Austfirðingafjórðungi.

Janus Arn Guðmundsson, sem er hluti af kosningateymi Baldur og Felix Bergssonar, staðfestir þetta við fréttastofu. Söfnun hafi hafist klukkan hálf níu í morgun og takmarkinu verið náð klukkustund og 43 mínútum síðar.

Mikil virkni var í Facebook-hópnum Baldur og Felix - alla leið í morgun á meðan söfnun fór fram. Gunnar Helgason, rithöfundur og vinur þeirra hjóna, var meðal annars með ákall til Austfirðinga sem virðast samkvæmt færslu Gunnars hafa tekið síðar við sér en íbúar í öðrum fjórðungum.

Alls hafa 43 skráð sig á Island.is til þess að safna undirskriftum. Þar má finna nokkurn fjölda sem ekki hefur tilkynnt formlega um framboð. Þá hefur Vísir upplýsingar að meðal þeirra 43 sem eru skráðir sé fólk sem ætlaði að mæla með frambjóðenda en skráði sig fyrir mistök sem frambjóðanda.
Þann 26. apríl rennur framboðsfrestur út og 2. maí mun landskjörstjórn auglýsa hver eru í framboði til forseta. Eftir það verður hægt að kjósa utan kjörfundar m.a. hjá sýslumönnum og erlendis í sendiráðum og hjá ræðismönnum Íslands.
Fréttastofa hvetur frambjóðendur til að tilkynna fréttastofu þegar lágmarks undirskriftum hefur verið náð. Það má gera á ritstjorn@visir.is.