Hraun úr eldgosinu á Sundhnúksgígaröðinni flæddi í gærkvöldi ofan í Melhólsnámu sem hefur verið nýtt við gerð varnargarðanna.
Arnar Smári Þorvarðarson, byggingartæknifræðingur hjá Verkís segir í samtali við fréttastofu að hraun hafi farið að skríða af stað til vesturs og suðurs. Það hafi lagst upp að horninu á varnargörðum L7 og L12, þar sem þeir mætast. Þar stoppaði hraunið en fór ekki yfir garðana.
Hraunið hélt áram að síga til vestur og náði að lokum ofan í námuna. Þar rann drjúgur hraunstraumur niður fram eftir nóttu, en rennslið virðist nú hafa stöðvast.

Ari Guðmundsson, byggingarverkfræðingur hjá Verkís sagði í gær að það væri bagalegt að missa námuna, en nú stendur til að reyna að opna hana að einhverju leiti.
„Við horfum til þess að útvíkka hana og geta tekið efni,“ segir Arnar Smári.
Vinna hafin við hækkun varnargarðanna
Arnar Smári segir að undirbúningsvinna sé hafin við hækkun varnargarðanna við Grindavík. Hvort það verði í þessu eldgosi sem hraun muni leggjast ofan á garðana sé óvíst, en annar atburður muni koma á eftir þessu.
„Við erum byrjaðir að vinna vegi meðfram, innan við garðana til að geta ferðast til með efni og hækkað upp þar sem við teljum okkur geta það.“

Gasmengunar hefur orðið vart á Reykjanesi í kjölfar eldgossins en Arnar segir slíkt ekki hafa truflað vinnuna á svæðinu nema að litlu leyti.
„Það voru tveir daga í vikunni þar sem við vorum í vandræðum á Svartsengissvæðinu en þegar vindátt er hagstæð truflar það ekki.“