Guðrún Karítas margbætti Íslandsmetið í lóðkasti í vetur og byrjaði utanhússtímabilið á því að bæta sig í sleggjukasti með því að kasta 67,01 metra á fyrsta móti. Hún var þarna að bæta sinn persónulega árangur um tvo metra. Guðrún hafði kastað lengst áður 65,42 metra.
Þetta þýðir að Ísland á tvær efstu stelpurnar á afrekalista bandarísku háskólanna á tímabilinu. Í fyrsta sætinu er Elísabet Rut Rúnarsdóttir sem byrjaði sitt utanhússtímabil á því að kasta 69,11 metra. Þar bætti Elísabet Íslandsmet sitt um meira en tvo metra með mögnuðu kasti.
Gamla Íslandsmet Elísabetar frá því í júní fyrra var upp á 66,98 metra. Guðrún Karítas kastaði því yfir gamla Íslandsmetinu á sínu fyrsta móti.
Elísabet Rut og Guðrún Karítas eiga nú saman sautján lengstu sleggjuköst Íslandssögunnar. Elísabet Rut á sjö af tíu bestu köstunum en Guðrún á nú það næstbesta og þrjú af lengstu tíu.
Svo skemmtilega vill til að íslensku stelpurnar mætast á Texas Relays móti í Austin í Texas á fimmtudaginn.
Guðrún Karítas er 21 árs gömul og nemi við Virginia Commonwealth háskólann. Elísabet Rut er líka 21 árs gömul og nemi við Texas State háskólann. Skólarnir keppa báðir á þessu móti.
Það verður fróðlegt hvort að einvígi þessa öflugu íslensku kastara kalli jafnvel fram enn betri árangur en þær hafa náð til þessa.