Erlent

Vísinda­menn vilja frið­lýsa vísinda­lega mikil­væg svæði á tunglinu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Vísindamenn sjá fyrir sér margs konar rannsóknir á tunglinu en frumkvöðlar horfa einnig til tunglsins með ýmis tækifæri í huga, til að mynda námugröft.
Vísindamenn sjá fyrir sér margs konar rannsóknir á tunglinu en frumkvöðlar horfa einnig til tunglsins með ýmis tækifæri í huga, til að mynda námugröft. Getty

Vísindamenn kalla nú eftir því að ákveðin svæði á tunglinu verði friðlýst, til að tryggja að hægt verði að gera ákveðnar rannsóknir þar í framtíðinni. Margir ætla sér stóra hluti á tunglinu á næstu árum og áratugum.

Svæðin sem um ræðir búa yfir ýmsum kostum; sum þeirra eru í algjöru vari frá hávaða frá jörðinni, sum eru laus við allan titring í jörðu og önnur hafa aldrei verið böðuð sólarljósi og eru því ísköld. 

Köldu svæðin eru tilvalin staðsetning fyrir infra-rauðra geimsjónauka sem virka aðeins þar sem hitastigið er undir -200 gráðum. Þá sjá vísindamenn fyrir sér að koma fyrir útvarpssjónaukum hinum megin á tunglinu, á svæðum sem eru í friði fyrir útsendingum frá jörðinni.

Á þeim svæðum hyggur nýsköpunarfyrirtækið Interlune hins vegar á námugröft, til að sækja helium-3 sem er mikilvægt hráefni í hátækniiðnaði. Þá eru að minnsta kosti 22 leiðangrar á tunglið á áætlun fyrir árið 2026.

Bandaríkjamenn annars vegar og Rússar og Kínverjar hins vegar hyggjast einnig reisa geimstöðvar á tunglinu fyrir árið 2040.

Guardian hefur eftir vísindamönnum að ef ekkert verður gert til að samræma aðgerðir og umsvif á tunglinu, megi allt eins gera ráð fyrir árekstrum. Sjá megi fyrir sér að fyrirætlanir eins ógni fyrirætlunum annarra.

Martin Elvis, stjörnufræðingur við Harvard og Smithsonian Center for Astrophysics í Massachusetts, segir mannkynið standa á tímamótum en nú sé komið að því í fyrsta sinn að maðurinn ákveði hvernig hann hyggst sækja fram í geimnum.

Hætta sé á að einstök tækifæri til að rannsaka og skilja alheiminn fari forgörðum.

Elvis og Alanna Krolikowski, stjórnmálafræðingur við Missouri University of Science and Technology, hafa ritað grein í Philosophical Transactions þar sem þau segja umrædd svæði, sem köllu eru Sesis, fela í sér einstaka möguleika til að stunda rannsóknir á alheimnum en svæðin séu fágæt og viðkvæm.

Sesis stendur fyrir „sites of extraordinary scientific importance“.

Elvis segir þá stöðu vel geta komið upp að menn hafi ólíka sýn á það hvernig þeir hyggjast nýta sama svæðið. Nauðsynlegt sé að eiga samráð um nýtingu á tunglinu til að fyrirbyggja árekstra og vernda mikilvæg svæði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×