Baráttan á toppi deildarinnar er æsispennandi en Ipswich er á toppi hennar með 84 stig, Leeds kemur næst með 83 og þá Leicester með 82 en þeir síðastnefndu eiga leik til góða á hin tvö.
Heimamenn í Watford byrjuðu leikinn betur þegar Vakoun Issouf Bayo kom þeim yfir á 31. mínútu en markahrókurinn Crysencio Summerville jafnaði leikinn skömmu síðar með sannkölluðu draumamarki. Óverjandi þrumufleygur úr utanverðum teignum sem tók sveig í átt að markinu og endaði í fjærhorninu.
Emmanuel Dennis kom Watford aftur yfir áður en hálfleikurinn var á enda með glæsilegu einstaklingsframtaki í teignum og var allt útlit fyrir að það yrði sigurmarkið í leiknum.
En á elleftu stundu, eða á 85. mínútu, kom Spánverjinn ungi Mateo Joseph Leeds til bjargar þegar hann skoraði sitt fyrsta mark á tímabilinu.
Lokatölur í Watford 2-2 og Leeds því áfram í 2. sæti þegar sjö umferðir eru eftir af deildinni.