Ísraelski herinn lýsti því yfir þegar árásirnar voru gerðar að um hnitmiðaða aðgerð væri að ræða og að sjúkrahúsið hefði verið notað sem stjórnstöð Hamas. Ísrealear hafa ítrekað gert árásir á svæðinu og hefur fjöldi fólks neyðst til að flyja heimili sín í grennd við sjúrahúsið.
Árásinni á sjúkrahúsið var einnig lýst sem þeirri „farsælustu“ sem herinn hefði framkvæmt frá því að átökin á Gasa stigmögnuðust. Sameinuðu þjóðirnar hafa hins vegar gefið það út að fjölmargir sjúklingar hafi látið lífið í árásunum og fjölmargir aðrir verið í stórhættu.
Herinn réðist á sjúkrahúsið 18. mars og hafa Palestínumenn lýst miklum átökum, handtökum og hörku á svæðinu fram til þessa.
AFP fréttaveitan greindi frá því í morgun að skriðdrekar og önnur ökutæki ísraelska hersins hafi sést yfirgefa sjúkrahússlóðina. Eyðileggingin sé hins vegar gríðarleg, lík liggi við sjúkrahúsið og inni í sjúkrahúsinu séu enn bæði sjúklingar og heilbrigðisstarfsfólk.