Forstjóri Bankasýslunnar skýrði fjármálaráðherra frá því í síðasta mánuði að stofnuninni hefði verið alls ókunnugt um kaup Landsbankans á öllu hlutafé í TM tryggingum.
Nokkrum dögum síðar sendi bankaráð Landsbankans frá sér yfirlýsingu þar sem kom fram að bankasýslunni hefði vel verið upplýst um fyrirhuguð kaup bankans á félaginu.
Væntir svara í næstu viku
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármála-og efnahagsráðherra átti svo fund með Bankasýslunni í síðustu viku vegna málsins. Enn er beðið skýringa frá stofnuninni,
„Við bara fórum yfir stöðu málsins á fundinum en þau eru enn með málið hjá sér. Ég býst við svörum frá þeim í málinu í næstu viku. Það skýrist á næstu dögum,“ segir Þórdís um fundinn.
Aðspurð um hvort hún sé sátt við skýringar Landsbankans í málinu svara Þórdís:
„Ég ætla bara að fara í gegnum þetta mál í réttri röð. Það er gert ráð fyrir að bankaráðið svari til Bankasýslunnar og sú stofnun er núna með málið hjá sér,“ segir Þórdís.
Fjármálaráðherra lýsti sig andsnúna kaupum Landsbankans á TM þegar greint var frá þeim í síðasta mánuði. Hún myndi ekki samþykkja kaupin nema söluferli Landsbankans hæfist samhliða.
Aðspurð hvort hún ætli að reyna að koma í veg fyrir að Landsbankinn kaupi Tm svara Þórdís:
„Nei nú er málið bara hjá Bankasýslunni og ég leyfi því bara að hafa sinn gang.“
Enn á dagskrá að leggja Bankasýsluna niður
Bjarni Benediktsson, utanríkisráðherra og fyrrverandi fjármálaráðherra, boðaði það fyrir tveimur árum að leggja niður Bankasýsluna. Þórdís segir það enn á döfinni.
„Það var rætt ekki af minni hálfu en annarra að það ætti að leggja niður Bankasýsluna á sínum tíma. Það þarf að forma eitthvað fyrirkomulag í staðinn. Það er ennþá á dagskrá og við skulum bara sjá hvernig það spilast,“ segir Þórdís.
Uppfært: Í samtali við fréttastofu segir Konráð S. Guðjónsson, aðstoðarmaður fjármála- og efnahagsráðherra, Þórdísi aldrei hafa sagst ekki ætla að stöðva kaup Landsbankans á TM, þrátt fyrir að hafa svarað spurningu fréttamanns neitandi. Svar hennar við spurningunni væri einungis það að málið lægi hjá Bankasýslunni og hún leyfi því að hafa sinn gang.