Kæra Einars S. Hálfdánarsonar á hendur þeim Semu Erlu Serdaroglu og Maríu Lilju Þrastardóttur Kemp hefur vakið mikla athygli eftir að greint var frá henni í vikunni.
Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari staðfesti við fréttastofu að kæran hefði borist embættinu frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í byrjun mars. Embættið hafi skoðað málið en talið réttast að lögregla hefði rannsókn á því. Kæran hafi því verið endursend til lögreglu.
Nú hefur lögregla fellt málið niður, að því er segir í fréttatilkynningu frá lögmönnum Semu Erlu og Maríu Lilju.
Dýrmæt orka farið í að verjast pólitískum ofsóknum
Í tilkynningunni segir að þessa dagana séu sjálfboðaliðar í Kaíró á vegum Solaris hjálparsamtaka að vinna þrekvirki við að taka á móti fjölda Palestínufólks með dvalarleyfi á Íslandi, mest konum og börnum, sem séu að flýja þjóðarmorð á Gaza.
Þökk sé öllum þeim þúsundum einstaklinga sem studdu landssöfnun fyrir Palestínu hafi sjálboðaliðum tekist að koma nærri 150 manns úr bráðum lífsháska og mannúðarkrísu en íslensk stjórnvöld hafi hætt störfum og skilið þar með eftir tugi einstaklinga, sem sjálfboðaliðar hafi nú komið undan þjóðernishreinsunum.
„Því miður þá hefur orka tveggja forsvarskvenna aðgerða Solaris í Kaíró, þeirra Semu Erlu Serdaroglu og Maríu Lilju Ingveldar-Þrastardóttur, farið í það undanfarna daga að verjast tilhæfulausri kæru Einars S. Hálfdánarsonar, sem sakaði þær meðal annars um refsiverð brot við fjársöfnunina og að hafa borið mútufé í erlenda opinbera starfsmenn í tengslum við aðstoð sína við palestínskt fólk á flótta.“
Verkefnin mikilvægari en svo að kæran trufli
Slíkar pólitískar ofsóknir og algjörlega tilhæfulausar kærur skipti engu máli í stóru myndinni því verkefni Solaris hjálparsamtaka séu mikilvægari en svo að láta slíkt trufla.
„Þær eru hins vegar fyrst og fremst merki um tilraun manns með sterk tengsl við valdakerfið til að eyðileggja orðspor fólks og valda því skaða, m.a. hafa af því lífsviðurværið, þar sem kærunni var meðal annars dreift til vinnuveitenda hinna kærðu, allt í þeim tilgangi að stöðva baráttuna fyrir mannréttindum.“
Lögreglan hafi nú hætt rannsókn málsins þar sem ekki sé talinn grundvöllur til að halda henni áfram. Kæran hafi ekki verið studd neinum gögnum og að því er virðist eingöngu innihaldslaust hugarfóstur kæranda, í þeim tilgangi að hræða baráttufólk fyrir mannréttindum.
„Við leyfum þessu ónæði ekki að hafa áhrif á okkar störf heldur höldum mannréttindabaráttunni ótrauð áfram. Það er það eina sem skiptir máli og við þökkum innilega fyrir allan stuðninginn.“