Dr. J. Steve Bynon Jr. starfaði sem yfirmaður skurðdeildar Memorial Hermann-Texas Medical Center í Houston þar sem nýrna- og lifrarígræðslur voru framkvæmdar. Hann hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín en rannsókn hefur nú verið hrundið af stað eftir undarlega mörg dauðsföll við stofnunina.
Yfirmenn hennar tilkynntu í síðustu viku að engar nýrna- eða lifrarígræðslur yrðu framkvæmdar á meðan rannsókn málsins stendur yfir en læknir við stofnunina hefði játað að hafa breytt sjúkraskrám sjúklinga á þann veg að ómögulegt væri að þeir fengju nokkurn tímann gjafalíffæri.
New York Times segir Bynon umræddan lækni.
Þegar sótt er um líffæri fyrir sjúklinga þarf meðal annars að skrá hvers konar gjafar koma til greina, til að mynda með tillit til aldurs og þyngdar. Við athugun kom í ljós að skilyrðin höfðu í sumum tilvikum verið þannig að ómögulegt yrði að finna ásættanlegan gjafa.
Aðrir skurðlæknar sem sérhæfa sig í líffæraígræðslum segja enga leið fyrir umrædda sjúklinga að hafa vitað að umsóknum þeirra og gögnum hafi verið breytt.
Ekkert hefur verið gefið upp um það hvað Bynon kann að hafa gengið til né liggur fyrir eins og stendur hvaða áhrif inngrip hans hafa haft. Það liggur hins vegar fyrir að óvenju hátt hlutfall sjúklinga á Memorial Hermann hefur látist á meðan þeir hafa beðið eftir líffærum.
Á deild Bynon voru 29 lifrarígræðslur framkvæmdar árið 2023 en sama ár voru fjórtán teknir af biðlistum stofnunarinnar vegna þess að þeir voru annað hvort látnir eða orðnir of veikir til að fá líffæri.