Garnacho var tekinn af velli í hálfleik þegar Man United gerði 2-2 jafntefli við AFC Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni. Eftir leik þá gagnrýndi Ten Hag hægri hlið liðsins, það er bakvörð og vængmann, en Garnacho lék á hægri vængnum meðan hans naut við.
Eftir leik mátti sjá að Garnacho hafði líkað við tvær færslur þar sem Ten Hag var gagnrýndur fyrir að taka Argentínumanninn af velli.
Þjálfarinn var eðlilega spurður út í þetta á blaðamannafundi sínum fyrir leik Man United og Coventry City í undanúrslitum ensku bikarkeppninnar sem fram fer um helgina.
„Alejandro er ungur leikmaður sem á margt eftir ólært,“ sagði Ten Hag. Hann staðfest að hinn 19 ára gamli Garnacho hefði beðist afsökunar og málinu væri lokið af sinni hálfu.
„Hann baðst afsökunar og við höldum áfram.“
"Alejandro is a young player. He apologised for it and after that we move on."
— Sky Sports News (@SkySportsNews) April 19, 2024
Erik ten Hag says Garnacho has apologised for likes on social media criticising his decisions pic.twitter.com/1V4vRQYdgI
Garnacho hefur tekið þátt í 42 leikjum í öllum keppnum á leiktíðinni, skorað 9 mörk og gefið 4 stoðsendingar.
Man United mætir Coventry City í undanúrslitum ensku bikarkeppninnar á sunnudag. Er leikurinn sýndur beint á Stöð 2 Sport 2 og hefst útsending klukkan 14.20.