Þetta tekur Össur ekki undir og segir hann í færslu sem hann birti á síðu sína á Facebook að fólk eigi einfaldlega að hafa val. Vilji menn einstakling með „djúpa reynslu líkt og Ólafur Ragnar eða Katrín Jakobsdóttir“ eigi þeir að hafa frelsi til að geta valið slíkan frambjóðanda.
„Ef þeir vilja fremur fyndinn kall sem segist ekki ætla að vera trúður á Bessastöðum en kallar sig nú þegar með sögulegri íroníu „Jón forseta“ þá eiga þeir endilega að kjósa hann,“ segir Össur.
Gnafinn eins og Georg Bjarnfreðarson
Össur spyr sig hverjir megi þá bjóða sig fram til forseta fyrst fyrrverandi forsætisráðherra megi það ekki.
„Mega t.d. fyndnu kallarnir sem hafa í tvo áratugi verið vinsælustu grínistar sjónvarpa og útvarpa og eru líklega jafn þekktir og helstu brýni stjórnmálanna bjóða sig fram?“ spyr Össur sig.
„Hvað með fyrrverandi borgarstjóra? Sú staða var löngum talin með þremur valdamestu embættum á Íslandi. Jón Gnarr var sjálfur (góður) borgarstjóri og tröllreið fjölmiðlum í því hlutverki. Er eitthvað að því að hann bjóði sig til forráða á Bessastöðum? Vitaskuld ekki,“ segir hann þá.
Jafnframt segir Össur Jóni Gnarr að „hætta að væla um þetta í hverjum þætti“ og að „hætta að vera gnafinn eins og Georg Bjarnfreðarson.
„Þá munu snarlega aukast líkurnar á að hann muni í framtíðinni brosa sínu breiða brosi af Álftanesinu til glaðrar þjóðar.“