Ásamt því að skila inn formlegum framboðum sínum þurfa frambjóðendur að skila inn listum yfir meðmælendur. Það þarf ekki að þýða að framboðið verði staðfest.
Kristín segir að farið verði yfir meðmælendalistana og gengið úr skugga um að þar séu minnst fimmtán hundruð nöfn og rétt skipt eftir landshlutum. Einnig verður passað upp á að enginn hafi skrifað undir meðmæli hjá tveimur frambjóðendum en þeir sem gerðu það verða strikaðir út á báðum stöðum.
Þetta verður gert eftir fund landskjörstjórnar á morgun. Í kjölfarið verður svo haldinn annar fundur á mánudagsmorgun. Þá verður úrskurðað um gildi framboða.
Kristín segir að þá hefjist tuttugu klukkustunda kærufrestur.
„Ef það koma fram kærur, þá er leyst úr þeim og þegar það liggur allt fyrir verður auglýst hverjir séu í framboði,“ sagði Kristín. Hún sagði að það yrði ekki seinna en 2. maí.