Breska ríkisútvarpið, BBC, er meðal miðla sem greinir frá tíðindunum. Slot hefur verið fastlega orðaður við Bítlaborgarana í vikunni og nú er útlit fyrir að samkomulag sé í höfn.
Liverpool mun greiða Feyenoord 9,4 milljónir punda til að losa Slot undan samningi hans við Feyenoord. Það jafngildir rúmum einum og hálfum milljarði króna.
7,7 milljónir greiðast við skiptin og 1,7 milljón gæti bæst við í árangurstengdar greiðslur.
Slot lýsti yfir áhuga sínum að taka við félaginu í vikunni og fyrst samkomulag liggur fyrir milli félaganna virðist fátt geta komið í veg fyrir skiptin.
Slot er 45 ára gamall Hollendingur sem hefur gert góða hluti með Feyenoord frá því að hann tók við árið 2021. Liðið varð hollenskur meistari í fyrra og vann bikarkeppnina í ár.