Innlent

Ei­ríkur og Ást­þór fá frest til að bæta við undir­skriftum

Bjarki Sigurðsson skrifar
Eiríkur Ingi Jóhannsson og Ástþór Magnússon vilja báðir verða forseti Íslands.
Eiríkur Ingi Jóhannsson og Ástþór Magnússon vilja báðir verða forseti Íslands. Vísir

Forsetaframbjóðendurnir Ástþór Magnússon og Eiríkur Ingi Jóhannsson fá báðir frest til klukkan fimm á morgun til þess að safna örfáum undirskriftum til viðbótar. Ástþór segir fleiri undirskriftir hafa dottið út hjá sér en venjulega. 

Í gær skiluðu forsetaframbjóðendur inn meðmælendalistum sínum til Landskjörstjórnar. Til þess að mega bjóða sig fram þurftu þeir að safna 1.500 undirskriftum og skiluðu þrettán manns inn listum sínum. 

Við yfirferð Landskjörstjórnar kom í ljós að í það minnsta tveir frambjóðendur, Eiríkur og Ástþór, væru með undir lágmarksfjölda undirskrifta í Sunnlendingafjórðungi þegar búið var að fjarlægja ógild meðmæli, svo sem nöfn þeirra sem höfðu einnig skrifað undir hjá öðrum frambjóðanda. 

Ástþór segir í samtali við fréttastofu að þetta hafi verið um tvö hundruð nöfn sem duttu út hjá honum, sem er meira en hann hefur séð áður. Hann vantar örfá nöfn til viðbótar, en einungis á Sunnlendingafjórðungi. 

„Þetta gerðist þannig að konan sem var ráðin í að safna þar, hún veiktist og lenti á sjúkrahúsi. Ég ætlaði að vera með meira á Suðurlandi en hún lenti á sjúkrahúsi. Við héldum að þetta væri bara komið en svo skaraðist þetta meira en áður,“ segir Ástþór. 

Eiríkur birti færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hann segist hafa safnað um 1.700 undirskriftum, 1.524 þeirra hafi verið gildar en þrátt fyrir það vanti enn fimmtán í Sunnlendingafjórðungi.

Uppfært klukkan 20:02: Ástþór segist í samtali við fréttastofu hafa safnað undirskriftunum sem vantaði á skotstundu. Því sé hann aftur kominn með lágmarksfjölda í Sunnlendingafjórðungi.


Tengdar fréttir

Vill skipa í ríkisstjórn eftir eigin höfði

Eiríkur Ingi Jóhannsson sjómaður og forsetaframbjóðandi skilaði inn undirskriftum til landskjörstjórnar í Hörpu í dag. Lítið hefur farið fyrir Eiríki í baráttunni sem safnaði nær öllum undirskriftum í eigin persónu og hefur háleit markmið um að breyta stjórnskipan landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×